James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að 20 prósent af starfhæfum herflugvélaflota Sýrlands hafi eyðilagst í nýlegri árás Bandaríkjahers á Shayrat-herflugvöllinn í Sýrlandi. Hann sagði einnig að í kjölfar árásarinnar myndi stjórnarher Sýrlands hugsa sig tvisvar um áður en efnavopnum væri beitt. BBC greinir frá.
Föstudaginn 7. apríl skaut Bandaríkjaher 59 Tomahawk-eldflaugum að Shayrat-herflugvellinum í Sýrlandi í kjölfar efnavopnaárásar þar í landi daginn áður. Þetta er fyrsta beina árás Bandaríkjamanna gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.
Sýrlensk yfirvöld hafa neitað aðild að efnavopnaárásinni, sem gerð var á bæinn Khan Sheikhoun. 89 manns létust í árásinni en bærinn er í höndum uppreisnarmanna.
„Bandaríkin munu ekki sitja hjá með hendur í skauti“
Mattis sagði að árás Bandaríkjamanna hefði eyðilagt eldsneytis- og skotvopnaaðstöðu, skaðað loftvarnir og um 20 prósent af flugvélum sýrlenska stjórnarhersins.
„Sýrlenska ríkisstjórnin getur ekki lengur sett eldsneyti á flugvélar sínar eða hlaðið þær vopnum á Shayrat-herflugvellinum,“ bætti hann við, auk þess sem að haft var eftir honum að Bandaríkin myndu ekki „sitja hjá með hendur í skauti á meðan forseti Sýrlands myrðir saklaust fólk með efnavopnum.“
Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins sagði þó að aðeins 6 sýrlenskar þotur af gerðinni MiG-23 hefðu eyðilagst í árásinni, auk nokkurra bygginga, og að aðeins 23 af 59 eldflaugum Bandaríkjahers hefðu náð alla leið að skotmarkinu.
Fulltrúar G7-ríkjanna, stærstu iðnríkja heims, funda um þessar mundir á Ítalíu, m.a. um samband Rússlands og Sýrlands.
Bandamenn hóta að svara í sömu mynt
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, sagði að möguleiki væri á frekari eldflaugaárásum af hendi Bandaríkjahers.
Í sameiginlegri fréttatilkynningu frá fjölmiðlafulltrúum ríkisstjórna Rússlands og Íran, helstu bandamönnum Sýrlands, kemur fram að löndin hóti að svara í sömu mynt.
„Nú munum við svara hverjum þeim af krafti sem fer yfir strikið eða reynist árásaraðili. Ameríka veit að við getum svarað fyrir okkur.“
