Innlent

Vilja banna fjallajeppa í miðbænum

Benedikt Bóas skrifar
Bannið gildi fyrir stærri og minni hópbifreiðar með ferðamenn og sérútbúnar jeppabifreiðar með yfir 36” dekk. Svona bílar myndu því hverfa úr miðborginni.
Bannið gildi fyrir stærri og minni hópbifreiðar með ferðamenn og sérútbúnar jeppabifreiðar með yfir 36” dekk. Svona bílar myndu því hverfa úr miðborginni. vísir/eyþór
Jeppabifreiðum sem hefur verið breytt til að aka með ferðamenn um jökla og fáfarnar slóðir og eru með stærri en 36 tommu dekk verður bannað að aka á ákveðnum svæðum í miðborginni gangi tillögur starfshóps Reykjavíkurborgar eftir. Við þetta eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á breyttum jeppum mjög ósátt.

FETAR, Félag eigenda torfæruökutækja í atvinnurekstri, sem eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem starfa við ferðaþjónustu á breyttum ferðaþjónustubifreiðum, birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem sem fyrirhuguð boð og bönn eru hörmuð.

„Fullkomið sinnuleysi hefur ríkt hjá borgaryfirvöldum hvað samgöngumál ferðamanna varðar. Ljóst er að lítilli gestrisni er fyrir að fara hjá borgaryfirvöldum hvað þetta varðar, svo lítilli að í raun stappar nærri tillitsleysi og dónaskap,“ segir meðal annars.

Samtökin segja að tillagan haldi ekki vatni í nokkru samhengi. „Jafnframt má benda meðlimum stýrihópsins á að 36" dekk sjást varla á nokkrum jeppabifreiðum í dag, sérstaklega ekki á jeppabifreiðum í farþegaflutningum. Ólíklegt er að sú dekkjastærð eigi við í því tilviki þar sem verið er að fjalla um akstur með ferðamenn, og því virðist sem stýrihópurinn hafi freistast til að teygja sig lengra en erindi hans nær hvað þetta varðar.“

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, skipar hópinn og segir að búið sé að vinna mjög vel með hagsmunaaðilum og íbúasamtökum. „Í þeim tillögum sem verða lagðar fram í næstu viku er gert ráð fyrir meiri takmörkunum en nú eru þegar í gildi um mjög stóra og breytta jeppa. Þá mun bannið gilda fyrir þá bíla sem eru stækkaðir fyrir ferðamennsku en ekki þá sem eiga sinn fjallabíl fyrir sig og sína.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×