Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa hækkað viðbúnaðarstig sitt vegna afmælishátíðar hers nágranna sinna í norðri. Gífurlegur viðbúnaður er við landamæri ríkjanna og hjá nágrönnum þeirra, en talið er mögulegt að Norður-Kórea stefni að kjarnorkuvopnatilraun á næstunni.
Næsta þriðjudag fagnar Norður-Kórea því að 85 ár verða liðin frá því að her ríkisins var stofnaður. Á sama tíma lýkur umfangsmiklum æfingum hersins.
Bandaríkin og Suður-Kórea hafa haldið því fram í nokkrar vikur að til standi að sprengja kjarnorkuvopn á næstunni í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna.
Sjá einnig: Gera ekki kjarnorkutilraunir en spila þess í stað blak
Samkvæmt Reuters fréttaveitunni segir talsmaður Sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu að náið sé fylgst með hernum í norðri.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur vakið reiði í Suður-Kóreu eftir að hann sagðist vera að senda Carl Vinson-flotadeildina til Kóreuskagans. Svo virðist þó sem að það hafi ekki verið rétt og að flotadeildin hafi verið á leið til æfinga við strendur Ástralíu. Því er þó enn haldið fram að flotadeildin muni fara til Kóreu.
Sjá einnig: Segjast hættir að treysta Trump
Bandarískir embættismenn segja að sprengjuflugvélar Kína hafi verið færðar á hærra viðbúnaðarstig. Líkur eru leiddar að því að það sé svo þeir geti brugðist hraðar við öllum vendingum í Norður-Kóreu.
Hækka viðbúnaðarstig vegna hátíðar hersins í norðri
Samúel Karl Ólason skrifar
