Þessi sömu lið áttust við á sama stað í eftirminnilegum oddaleik árið 2009. Þá hafði KR betur.
Um 2500 manns voru á leiknum fyrir sjö árum og búist er við svipuðum fjölda á leiknum í kvöld.
„Það er bara hátíð í bæ og þetta verður svakalega gaman. Við ætlum að ná upp sömu stemningu og í leiknum gegn Grindavík árið 2009 og viljum helst fá fleiri í húsið en þá,“ sagði Böðvar Guðjónsson, formaður meistaraflokksráðs KR, í samtali við Vísi á föstudaginn.
KR-ingar eru vel undirbúnir fyrir leikinn í kvöld en hér fyrir neðan má sjá hvernig skipulagið í DHL-höllinni verður.
Miðasala er hafin á netinu en miðasala á staðnum hefst klukkan 15:00. KR-ingar kveikja svo upp í grillinu klukkan 16:00.
Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsending klukkan 18:30. Kjartan Atli Kjartansson og félagar í Domino's Körfuboltakvöldi munu hita vel upp fyrir leikinn og gera hann svo upp að honum loknum.
