Fótbolti

KSÍ seldi alla miðana sína á Finnlandsleikinn og vill fá fleiri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenskt stuðningsfólk á EM 2016.
Íslenskt stuðningsfólk á EM 2016. Vísir/getty
Stuðningsfólk íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu ætlar að fjölmenna til Finnlands í upphafi septembermánaðar.

Ísland spilar þá við finnska landsliðið í undankeppni HM 2018 þar sem íslensku strákarnir ætla sér að koma íslenska karlalandsliðinu í úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í fyrsta sinn.

Það sem gerir þennan leik enn meira spennandi er að íslenska karlalandsliðið í körfubolta er að taka þátt í úrslitakeppni EM í Finnlandi á sama tíma.

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta leikur þannig sama dag við Pólland í Helsinki en leikurinn við Finna, sem er í undankeppni HM, fer fram í Tampere.

Körfuboltaleikurinn hefst klukkan 12.45 en síðan mun lest flytja stuðningsfólk Íslands norður til Tampere svo allir geti séð fótboltaleikinn líka sem hefst klukkan 18.00 að finnskum tíma.

1300 miðar seldust upp á svæði stuðningsmanna Íslands en KSÍ hefur óskað eftir fleiri miðum og munum við birta á vef KSÍ og samfélagsmiðlum ef fleiri miðar verða í boði.  KSÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Leikurinn fer fram í Tampere og tekur völlurinn um 16.800 manns í sæti og er því ljóst að landsliðið mun fá góðan stuðning á leiknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×