Viðskipti innlent

Norðmenn óttast „íslenskt ástand“ í ferðamálum

Atli Ísleifsson skrifar
1,8 milljónir ferðamanna komu til landsins á síðasta ári.
1,8 milljónir ferðamanna komu til landsins á síðasta ári. Vísir/Pjetur
„Við ræðum mikið það sem er að gerast á Íslandi. Við verðum að tryggja að komum ekki á þann stað að við, sem einn af þekktustu áfangastöðum heims þar sem gert er út á náttúru, eyðileggjum ekki forskot okkar þegar kemur að náttúru, vegna eyðingar eða deilna milli íbúa og ferðamanna. Þá verður ferðamennskan vandamál en ekki auðlind.“

Þetta segir Bente Bratland Holm, ferðamálastjóri hjá Innovasion Norge, í samtali við Dagens Næringsliv. Innovasion Norge er stofnun í eigu norska ríkisins og héraða sem er með það að markmiði að styðja við atvinnuþróun í landinu öllu.

Í frétt DN kemur fram að ferðamönnum hafi fjölgað á Íslandi um 40 prósent á milli ára. Hafi fjöldinn fjórfaldast frá árinu 2010, en á síðasta ári komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins.

Bratland Holm segir að Norðmenn verði að vinna að því að lokka þá ferðamenn til landsins sem skilji eftir mest verðmæti. Segir hún að Norðmenn eigi meðal annars að miða að því að fá ferðamenn til landsins með ráðstefnuhaldi og íþrótta- og menningarviðburðum.

Hún segir að tryggja verði að Noregur sé fremsti áfangastaður ferðamanna sem koma til að upplifa náttúru. Þar sé mikilvægt að tryggja að landið þoli áganginn.

Í viðtalinu segir hún jafnframt að norsk menning eigi að vera mikilvægur hluti allrar þróunar og markaðssetningar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×