Björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út klukkan rétt rúmlega eitt í dag vegna konu sem var í sjálfheldu í Esju.
Var hún á hinni hefðbundnu gönguleið en komin efst í Þverfellshornið, í klettabelti og komst hvorki lönd né strönd.
Svo vel vildi til að á gönguleiðinni var björgunarsveitarmaður og fór hann strax til aðstoðar ásamt félaga sínum.
Komu þeir konunni úr klettunum og eru þau nú á leið niður á bílastæði.

