Erlent

Trump ver rétt sinn til að deila upplýsingum með Rússum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist hafa rétt á því að deila upplýsingum með Rússum. Hann virðist hafa staðfest fregnir þess eðlis að hann hafi deilt trúnaðarupplýsingum með utanríkisráðherra og sendiherra Rússlands í heimsókn þeirra í Hvíta húsið í síðustu viku.

Upplýsingarnar eru sagðar snúa að fartölvubanni í flugvélum og ætlunum Íslamska ríkisins og er Trump sagður hafa mögulega sett heimildarmann bandamanns Bandaríkjanna í mikla hættu

Forsetinn hefur í raun rétt á því að deila trúnaðarupplýsingum með hverjum sem hann vill, en bandamaðurinn sem um ræðir hafði ekki gefið leyfi fyrir dreifingu upplýsinganna og voru þær geymdar í öryggishólfi sem einungis nokkrir aðilar höfðu aðgang að.

Trump segir að hann hafi gert það að mannúðarástæðum og vegna þess að hann vill að Rússar gefi í í baráttu sinni við Íslamska ríkið og önnur hryðjuverkasamtök.

Frétt Washington Post um málið í gærkvöldi vakti mikla athygli og hafa bæði talsmenn Trump og Rússar sagt ekkert vera til í þeim. Þeir segja forsetann ekki hafa sagt frá því hvernig upplýsingarnar fengust né hafi hann ógnað öryggi heimildarmanna.

Í frétt WP er því haldið fram að Trump hafi gefið Rússum upplýsingar sem hægt væri að nota til að finna heimildarmanninn.

AP fréttaveitan segir Trump hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni vegna málsins og það hafi mögulega skaðað samstarf leyniþjónusta Bandaríkjanna við önnur ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×