IFK Norrköping vann 2-1 sigur á nýliðum Ekilstuna í fyrsta leik áttundu umferðar sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Liðið hefur nú ekki tapað í fimm leikjum í röð; unnið þrjá og gert tvö jafntefli.
Gestirnir í Norrköping komust í 2-0 með mörkum Niclas Eliasson og Kalle Holmberg í fyrri hálfleik áður en nýliðarnir minnkuðu muninn á 57. mínútu. Eskilstuna á enn eftir að vinna leik en liðið er að spila í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í sögunni.
Jón Guðni Fjóluson spilaði allan leikinn fyrir Norrköping en Guðmundur Þórarinsson var tekinn af velli á 74. mínútu. Þetta var hans fyrsti leikur í byrjunarliði Norrköping. Ungu Íslendingarnir Alfons Sampsted og Arnór Sigurðsson voru allan tímann á bekknum.
Með sigrinum skaut Norrköping sér upp í annað sætii deildarinnar þar sem það situr með fjórtán stig, þremur stigum á eftir toppliði Malmö.
Í Noregi tapaði Íslendingaliðið Álasund, 1-0, á heimavelli á móti Vålerenga. Herman Stengel skoraði eina mark leiksins á 39. mínútu.
Daníel Leó Grétarsson og Adam Örn Arnarson voru báðir í byrjunarliði Álasunds en Grindvíkingurinn Daníel Leó fór meiddur af velli á 34. mínútu.
Fyrir leikinn í kvöld var Álasund ekki búið að tapa í fimm leikjum í röð en það er í áttunda sæti með ellefu stig eftir átta leiki.

