Erlent

Trump varar Comey við að leka gögnum

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur varað James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, við að leka gögnum til fjölmiðla. Trump varaði Comey við á Twitter-síðu sinni.

Í tístinu sagði Trump að Comey ætti að vonast til að engar upptökur séu til af samtölum þeirra áður en hann myndi taka upp á að leka upplýsingum í fjölmiðla. Gefur Trump þar með í skyn að slíkar upptökur, séu þær á annað borð til, myndu vera í mótsögn við málflutning Comey.

Trump rak Comey úr embætti fyrr í vikunni, en bandaríska alríkislögreglan hefur verið að rannsaka hvort að samstarfsmenn Trump hafi átt í samskiptum við fulltrúa rússneskra stjórnvalda í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember.

Trump hefur sagt að Comey hafi í þrígang greint honum frá því að Trump væri sjálfur ekki til rannsóknar.


Tengdar fréttir

Í mótsögn við sitt eigið starfsfólk

"Ég ætlaði alltaf að reka Comey,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti um brottrekstur sinn á James Comey, yfirmanni alríkislögreglunnar, í viðtali við NBC í gær. Sagði hann að hvatning aðstoðardómsmálaráðherrans, Rods Rosenstein, þess efnis hefði ekki haft úrslitaáhrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×