Fótbolti

Sara Björk með níu fingur á þýska meistaratitlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sara Björk varð fjórum sinnum Svíþjóðarmeistari og gæti orðið Þýskalandsmeistari seinna í kvöld.
Sara Björk varð fjórum sinnum Svíþjóðarmeistari og gæti orðið Þýskalandsmeistari seinna í kvöld. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í þýska liðinu Wolfsburg eru sama og orðnir meistarar í þýsku 1. deildinni eftir 2-1 sigur á SGS Essen í kvöld.

Toppliðið lenti samt undir á heimavelli á 39. mínútu þegar Lea Schüller skoraði fyrir Essen sem er í sjötta sæti deildarinnar. Gestirnir voru þó ekki lengi í paradís því Alexandra Popp jafnaði metin fyrir Wolfsburg í næstu sókn og staðan 1-1 í hálfleik.

Það var svo Ewa Pajor sem skoraði sigurmarkið fyrir heimakonur á 54. mínútu og lokatölur, 2-1. Risastórt skref fyrir Wolfsburg í átt að þýska titlinum.

Staðan er þannig núna að Wolfsburg er með 53 stig og á tvo leiki eftir. Turbine Potsdam er í öðru sæti með 44 stig og spilar seinna í kvöld á móti næst neðsta liðinu, Bayer Leverkusen.

Potsdam þarf að vinna síðustu þrjá leiki sína og vonast til að Wolfsburg tapi síðustu tveimur. Auk þess þarf Potsdam að vinna upp 16 marka mun á liðunum í þessum síðustu þremur umferðum.

Wolfsburg hefur tvívegis orðið meistari í Þýskalandi en það fagnaði titlinum 2013 og 2014 en hefur þurft að sjá á eftir honum til Bayern München undanfarin tvö ár og sætta sig við silfrið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×