Í gærkvöldi var gengið frá þjálfaramálunum hjá Akureyri handboltafélagi og þar verða engar breytingar í brúnni þrátt fyrir samkeppni frá KA.
Sverre Andreas Jakobsson verður áfram þjálfari Akureyrar og Ingimundur Ingimundarson mun verða áfram honum við hlið. Þorvaldur Sigurðsson mun svo aðstoða þá.
Sverre var með samning við Akureyri og ákvað að standa við hann. KA-menn ku hafa borið víurnar í hann eftir að félagið ákvað að slíta sig úr samstarfinu við Akureyri handboltafélag.
Sverre er KA-maður að upplagi en ákvað að halda starfinu áfram hjá Akureyri.
Liðið varð í neðsta sæti Olís-deildarinnar nýliðinn vetur og mun því spila í 1. deildinni næsta vetur.
Sverre og Ingimundur verða áfram þjálfarar Akureyrar
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
