Handbolti

Snorri Steinn væntanlega á heimleið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn í landsleik gegn Dönum.
Snorri Steinn í landsleik gegn Dönum. vísir/daníel
Samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá eru yfirgnæfandi líkur á því að Snorri Steinn Guðjónsson spili í Olís-deildinni næsta vetur.

Það eru fjórtán ár síðan hinn 35 ára gamli Snorri Steinn hélt utan í atvinnumennsku en nú er væntanlega komið að því að snúa aftur heim.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar er Snorri Steinn í viðræðum við félag sitt, Nimes, um starfslokasamning en Snorri á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.

Í samtali við íþróttadeild sagðist Snorri Steinn ekki geta tjáð sig um sín mál í augnablikinu. Þau væru í vinnslu.

Að Snorri Steinn sé væntanlega á heimleið núna kemur talsvert á óvart enda er hann í toppformi og hefur verið að spila frábærlega.

Snorri er búinn að skora 122 mörk í vetur og er áttundi markahæsti leikmaður deildarinnar. Hann er búinn að skora meira en bæði Mikkel Hansen og Nikola Karabatic til að mynda.

Ef þetta gengur eftir þá verður það mikill hvalreki fyrir deildina að fá Snorra heim. Hann hefur sjálfur sagt áður að hugur hans stefni í þjálfun og verður áhugavert að sjá hvar hann endar.

Snorri í leik með danska ofurliðinu AG.
Snorri Steinn hóf atvinnumannaferil sinn með Grosswallstadt í Þýskalandi árið 2003 og var þar til ársins 2005 er hann færði sig yfir til Minden.

Þar var hann líka í tvö ár áður en hann tók tilboði GOG í Danmörku þar sem hann lék frá 2007 til 2009. Þá fór hann til Rhein-Neckar Löwen og lék með þeim leiktíðina 2009 til 2010.

Næstu tvö árin spilaði hann með danska ofurliðinu AG Köbenhavn. Er það fór á hausinn fór hann aftur til GOG og spilaði með þeim þar til hann flutti til Frakklands árið 2014 til þess að spila með Sélestat.

Snorri hefur svo leikið með Nimes frá árinu 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×