Körfubolti

Pressan er skyndilega öll á LeBron í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
Liðsmenn Boston Celtics geta í kvöld galopnað einvígið á móti Cleveland Cavaliers þegar liðin mætast í fjórða sinn.  Staðan er 2-1 en Boston-menn geta jafnað metin í nótt.

Leikurinn fer fram á heimavelli Cleveland Cavaliers, hefst klukkan hálf eitt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Það héldu allir að Cleveland Cavaliers væri að fara sópa Boston-liðinu í sumarfrí eftir tvo sannfærandi stórsigra í Boston en allt breyttist í seinni hálfleik á þriðja leiknum sem fór samt sem áður fram á heimavelli Cleveland.

Boston vann upp 21 stigs forskot Cleveland í seinni hálfleik og Avery Bradley tryggði Boston síðan sigur með flautuþristi. Allt í einu var komin spenna í einvígi sem allir héldu að væri búið.





Það er líka skyndilega komin mikil pressa á á LeBron James sem átti einn sinn versta leik á ferlinum í leik þrjú.

„Ég er einbeittur á leik fjögur. Við vitum hvað við gerðum vitlaust í síðasta leik og við vitum líka að við getum alltaf gert betur. Ég er að hugsa um nútíðina en ekki fortíðina,“ sagði LeBron James í samtölum við blaðamenn sem vildu margir fá að komast að því hvað var að hjá honum í leik þrjú.  Hann var hinsvegar stuttur í svörum og gaf þeim ekki mikinn tíma.

James var búinn að skora yfir 30 stig í átta leikjum í röð fyrir síðasta leik og það virtist vera sama hvað Boston-menn reyndu því ekkert nægði til að stoppa hann.





Það var ekki síst þess vegna sem svo margir göptu þegar James var bara með 11 stig, 6 tapaða bolta, 30 prósent skotnýtingu og ekkert stig í fjórða leikhluta í síðasta leik.

James skoraði ekki stig síðustu sextán mínútur leiksins og sama tíma vann Boston-liðið upp forskot Cleveland með mikilli baráttu og góðri þriggja stiga nýtingu.

Það er því mikil pressa á James í kvöld. Var síðasti leikur bara slys eða er Boston loksins búið að finna leið til að stoppa kónginn og þar með NBA-meistarana í Cleveland Cavaliers. NBA áhugamenn eru búnir að fá nóg af sópunum í bili og fylgjast því spenntir með á Stöð 2 Sport í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×