Monaco hafnaði risatilboði Real Madrid í franska ungstirnið Kylian Mbappé.
Samkvæmt heimildum The Telegraph hljóðaði tilboðið upp á 103 milljónir punda sem hefði gert Mbappé að dýrasta leikmanni allra tíma.
Hinn 18 ára gamli Mbappé skaust upp á stjörnuhimininn í vetur og skoraði 26 mörk og gaf 14 stoðsendingar í 43 leikjum fyrir Monaco.
Liðið varð franskur meistari í fyrsta sinn síðan árið 2000, komst í úrslit bikar- og deildabikarkeppninnar og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.
Eins og staðan er í dag hefur Monaco ekki áhuga á að selja og vill halda honum hjá félaginu í a.m.k. eitt ár til viðbótar.
Real Madrid er ekki óvant því að borga háar upphæðir fyrir leikmenn en félagið hefur fimm sinnum keypt leikmenn á metfé.
