Viðskipti innlent

Undiralda á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Svavar Hávarðsson skrifar
Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sagði gengi krónunnar ógna rekstri fyrirtækja, sem aldrei fyrr.
Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sagði gengi krónunnar ógna rekstri fyrirtækja, sem aldrei fyrr. vísir/anton brink
Það fór ekki framhjá neinum sem sat ársfund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í gær að mikil spenna hefur hlaðist upp að undanförnu milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi og stjórnvalda. Ráðherranefnd um gjaldtöku á greinina, sem kölluð er sáttanefnd, er eitt – en gengisþróun íslensku krónunnar er síðan sérstakt áhyggjuefni.

Kannski er bratt að lesa sérstaklega í það að Jens Garðar Helgason, formaður SFS, steig fyrstur í pontu, í stað sjávarútvegsráðherra, þvert á auglýsta dagskrá. Jens Garðar var hins vegar ekkert að skafa utan af því; sagði það alveg á hreinu að með áframhaldandi styrkingu krónunnar og „viðvarandi ástandi verður rekstrarumhverfi okkar sífellt erfiðara og tel ég að margar útgerðir og vinnslur muni leita leiða til hagræðingar með sameiningum eða sölu, eða hætta rekstri.“ Öllum landsmönnum hlyti að vera ljóst að núverandi peningastefna Seðlabanka Íslands væri ekki sjálfbær fyrir íslenskt atvinnulíf og henni yrði að breyta áður en það er of seint.

Jens Garðar fjallaði sérstaklega um nefnd sjávarútvegsráðherra sem liggur yfir endurskoðun veiðigjalda undir handleiðslu Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi forsætis- og sjávarútvegsráðherra. Jens Garðar lagði út af orðinu sátt og sagði að í sínum huga hlyti hún þegar að vera til staðar enda nýti greinin auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran og ábyrgan hátt; fjárfestir fyrir milljarða tugi um allt land og tryggir að öflug fyrirtæki verði burðarásar síns atvinnusvæðis og tryggi atvinnuöryggi og hálaunastörf. Þess utan greiði hún aukalega til samfélagsins í formi auðlindagjalda – og ekki erfitt að ráða í hvert orðunum var beint.

Sagði hann umræðuna um fiskveiðistjórnunarkerfið að undanförnu, vegna ákvarðana HB Granda um að hætta vinnslu á Akranesi, hafa verið taktlausa og galið að sú ákvörðun hafi verið samfélagslega óábyrg. Uppbygging fyrirtækisins á Vopnafirði sé besta dæmið, og aðeins eitt af fjölmörgum öðrum víða um land.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherravísir/anton brink

Ráðherra vill breiða sátt

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra var kynnt í pontu með þeim orðum fundarstjóra að hún þyrfti kannski nýja ræðu eftir breiðsíðu Jens Garðars. Hún hins vegar hóf mál sitt með því að segja að sjómannaverkfallið hefði ekki verið óskabyrjun nýs ráðherra, en niðurstaðan hefði verið ásættanleg. Hins vegar varaði hún við frekari átökum enda höggið mikið fyrir marga og endanlegar afleiðingar ættu enn eftir að koma í ljós – greinin geti ekki staðið af sér annað verkfall.

Þorgerður sagði íslenskan sjávarútveg glæsilega atvinnugrein en sníða þyrfti samt af vissa vankanta og bæta ásýnd hennar. Sjálfbærar og ábyrgar veiðar séu staðreynd og greinin sé fjárhagslega arðbær og þjóni þannig þjóðarbúinu í heild. En, þriðja stoðin – samfélagslega sáttin um greinina – er veikburða, sagði ráðherra. Því hefði hún einsett sér að komast að skynsamlegu og sanngjörnu samkomulagi um „blessuð“ gjaldtökumálin – eins og komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Ég hef einsett mér að komast að niðurstöðu í þeim efnum sem ríkir breið sátt um,“ og vísaði til gagnrýni á að enn og aftur hafi verið skipuð nefnd sem engu muni skila. Þorgerður blés á þá gagnrýni og sagði nefndina vel geta náð árangri – fái hún frið til þess.

„Við skulum ekki falla í þann pytt að gera lítið úr slíku starfi og þar af leiðandi þeim einstaklingum sem því sinna fyrr en að niðurstaðan liggur fyrir. Ég bið ekki um meira,“ sagði Þorgerður og bætti við að annar liður í að stuðla að samfélagslegri sátt um sjávarútveginn væru byggðasjónarmiðin. Hvað sem hver segi verði að hlusta á sanngirnis- og tilfinningarök í því samhengi – og beindi máli sínu til Jens Garðars.

„Trúið mér, eftir 20 ár í pólitík þá verður manni ljóst að tilfinninga- og sanngirnisrök vega í mörgum tilvikum jafn þungt og önnur rök. Því að baki stjórnmálunum er vilji fólksins og þegar því er nóg boðið, þá verða breytingar. Þannig er það bara. Og það er kraftur sem enginn skyldi vanmeta,“ sagði Þorgerður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×