Golden State Warriors hefur unnið tvo sannfærandi sigra á Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta en miklir yfirburðir Golden State hafa ekki komið niður á áhorfstölum.
Associated Press fréttastofan hefur undir höndum tölur um sjónvarpsáhorf fólks á fyrstu tvo leikina og þær koma vel út fyrir NBA-deildina.
Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers eru að mætast þriðja árið í röð í úrslitaeinvíginu og sú staðreynd hefur örugglega ýtt mikið undir áhuga fólks á leikjunum. Yfirburðir liðanna voru líka það miklir í fyrstu umferðum úrslitakeppninnar að áhugafólk um NBA-körfuboltann var fyrir löngu farið að bíða eftir úrslitaeinvíginu.
Sjónvarpsmælingar sýna að 19,6 milljónir manns horfðu að meðaltali á tvo fyrstu leikina sem er fimm prósent aukning frá því í fyrra.
Það var betra áhorf á leik tvö en 20,2 milljón settust þá fyrir saman sjónvarpstækin og sáu Golden Stata Warriors vinna 19 stiga sigur. Þetta er hæsta áhorf á leik tvö í lokaúrslitum NBA síðan að Michael Jordan skoraði 37 stig fyrir Chicago Bulls í sigri á Utah Jazz árið 1998.
Það er vissulega nóg að stjörnum í liðunum tveimur, menn eins og LeBron James, Kyrie Irving, Kevin Love, Stephen Curry, Kevin Durant, Klay Thompson og Draymond Green. Nú er að sjá hvort að Cleveland menn geti eitthvað bitið frá sér og gert þetta úrslitaeinvígi enn áhugaverðara.
Þriðji leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers fer fram í Cleveland í kvöld og hefst klukkan eitt eftir miðnætti. Hann verður að sjálfsögðu sýndur beint á Stöð 2 Sport eins og allir leikir lokaúrslitanna.
Hæstu áhorfstölur síðan að Jordan spilaði með Chicago Bulls
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
