Grande heimsótti óvænt börn á Konunglega barnaspítalanum í Manchester í gær, en styrktartónleikar hennar fara fram á krikketvellinum Old Trafford annað kvöld.
Í frétt BBC er haft eftir Adam Harrison að dóttur hans, Lily, hafi liðið eins og rokkstjörnu eftir að hafa hitt átrúnaðargoð sitt og hlakkaði mikið til að mæta á tónleika Grande á morgun, en hún verður útskrifuð af sjúkrahúsinu á morgun.
Alls létu 22 lífið og tugir særðust í sjálfsvígssprengjuárás Salman Abedi að tónleikunum loknum 22. maí.
Grande sneri aftur til Bretlands í gær, en fjölmargar stórstjörnur munu koma fram á styrktartónleikunum sem ganga undir nafninu One Love Manchester. Auk Grande munu meðal annars Justin Bieber, Usher, Katy Perry, Coldplay, Take That og Miley Cyrus koma fram.