Íslandi dugði ekkert minna en sigur og hann hafðist sannfærandi. Ísland verður því með á EM 2018 í Króatíu en þar verður liðið í fjórða styrkleikaflokki.
Samstaðan í liðinu og hjá þeim sem koma að því hefur alltaf verið einstök og hún sást enn og aftur eftir stórleikinn í gær sem var spilaður fyrir fullri Laugardalshöll.
Eins og alltaf þurfa starfsmenn HSÍ að vera fljótir að rífa dúkinn af gólfinu áður en þeir skila af sér Höllinni en í gær fengu þeir góða hjálp við það.
Arnór Atlason, einn reynslumesti leikmaður íslenska liðsins, átti nóg af orku eftir þrátt fyrir að vera á meðal elstu manna og hjálpaði framkvæmdastjóranum sjálfum, Róberti Geir Gíslasyni, að rífa upp dúkinn.
„Takk fyrir stuðninginn, þetta var frábært kvöld! Arnór Atlason var ekki hættur og kom með framkvæmdastjóranum í frágang eftir leik. Sjáumst í Króatíu í janúar!“ segir á Facebook-síðu Strákanna okkar.