Björn Bergmann Sigurðarson var á skotskónum þegar Molde vann 3-0 sigur á Tromsö í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Þetta var þriðji sigur Molde í síðustu fjórum leikjum en liðið er í 5. sæti deildarinnar. Óttar Magnús Karlsson lék síðustu fimm mínúturnar fyrir Molde.
Aron Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Tromsö sem er í fimmtánda og næstneðsta sæti deildarinnar.
Ingvar Jónsson hélt hreinu þegar Sandefjord vann góðan sigur á liðinu í 2. sæti, Sarpsborg, á heimavelli, 1-0.
Þetta var fyrsti sigur Ingvars og félaga í síðustu fimm leikjum. Þeir eru í 11. sæti deildarinnar.
Matthías Vilhjálmsson lék síðustu 35 mínúturnar þegar Rosenborg tapaði óvænt fyrir Haugesund, 1-0.
Norsku meistararnir hafa gefið eftir á undanförnum vikum og forskot þeirra á toppnum er nú aðeins eitt stig.
Þá sat Kristinn Jónsson allan tímann á varamannabekknum þegar Sogndal gerði markalaust jafntefli við Odds Ballklubb.

