Evrópumeistarar Þjóðverja, heimsmeistarar Frakka og Danir tryggðu sér sæti í lokakeppni EM 2018 í Króatíu í dag.
Þjóðverjar unnu þriggja marka sigur á Portúgölum, 26-29, í riðli 5. Þýska liðið vinnur riðilinn en Portúgal og Slóvenía berjast um 2. sætið.
Julius Kühn var markahæstur í þýska liðinu með sex mörk. Patrick Groetzki og Uwe Gensheimer skoruðu fimm mörk hvor.
Frakkar tryggðu sér farseðilinn til Króatíu með eins marks sigri, 25-26, á Litháum. Staðan var jöfn í hálfleik, 12-12. Nicolas Claire skoraði sigurmark Frakka um einni og hálfri mínútu fyrir leikslok.
Danska liðið vann það hollenska, 24-36, á útivelli í riðli 1. Michael Damgaard og Hans Lindberg skoruðu sjö mörk hvor fyrir Dani sem hafa náð í níu stig af 10 mögulegum í undankeppninni.
Kristján Andrésson og lærisveinar hans í sænska landsliðinu töpuðu með fjórum mörkum, 28-24, fyrir Svartfjallalandi á útivelli. Tapið breytir litlu fyrir Svía sem voru búnir að tryggja sér sæti á EM.
Þá eiga lærisveinar Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu fyrir höndum hreinan úrslitaleik um sæti á EM þegar þeir mæta Bosníu á laugardaginn.
