Erlent

Trump segir að ný heilbrigðislöggjöf Repúblikana sé „andstyggileg“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. vísir/getty
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að ný heilbrigðislöggjöf, The American Health Care Act, sem samþykkt var af fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir rúmum mánuði sé „andstyggileg“ og að hann vilji löggjöf sem sé „rausnarlegri.“

Frá þessu er greint á vef AP-fréttaveitunnar en ummælin á forsetinn að hafa látið falla í hádegisverði með 15 öldungadeildarþingmönnum Repúblikanaflokksins í dag.

Segja má að þessi ummæli Trump komi vægast sagt mjög á óvart enda var hann mikill talsmaður frumvarpsins á sínum tíma, hvatti eindregið til þess að það yrði samþykkt í fulltrúadeildinni og lofaði löggjöfina þegar hún loks var samþykkt.

Nú er hins vegar annað hljóð komið í strokkinn. Löggjöfin, sem samin var af flokkssystkinum Trump í Repúblikanaflokknum, er reyndar ekki óumdeild og var samþykkt naumlega í fulltrúadeildinni. Þá hafa öldungadeildarþingmenn Repúblikana gefið það út að þeir muni skrifa nýtt frumvarp í stað þess að taka frumvarpið sem fulltrúadeildin samþykkti fyrir.

Hvort það hafi einhver áhrif á skoðun Trump á því að löggjöfin sem hann lofaði svo mjög sé „andstyggileg“ er óljóst en heimildarmenn AP segja að forsetinn hafi ekki útskýrt það  nánar hverju hann vildi að yrði breytt í lögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×