Eins og frá var greint á Vísi fyrr í kvöld er Margrét Lára Viðarsdóttir með slitið krossband í hné og verður því ekki með íslenska kvennalandsliðinu á EM í Hollandi sem hefst 16. júlí næstkomandi.
Margrét Lára er fjórði leikmaður Vals sem slítur krossband á þessu ári en áður höfðu þær Mist Edvardsdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Elísa Viðarsdóttir, systir Margrétar Láru, lent í því sama.
Mist sleit krossband á æfingu Valsliðsins og Margrét Lára í leik Hauka og Vals 29. maí síðastliðinn. Dóra María varð fyrir sínum meiðslum í leik Íslands og Noregs á Algarve-mótinu og Elísa í vináttulandsleik gegn Hollandi í apríl.
Margrét Lára, Elísa og Dóra María eru allar þrautreyndar landsliðskonur og hefðu nær örugglega verið í lokahópnum sem fer á EM. Mist hefur leikið 13 landsleiki, þann síðasta fyrir þremur árum, og skorað eitt mark.
Auk áðurnefndra leikmanna sleit landsliðskonan Sandra María Jessen fremra krossband í hné í leiknum gegn Noregi á Algarve-mótinu. Sandra María er hins vegar komin aftur á ferðina og hefur leikið síðustu leiki Þórs/KA.
