Fótbolti

Gylfi kemur vel út í þessum samanburði við Króatann Perisic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í íslenska landsliðinu verða í eldlínunni á Laugardalsvellinum í kvöld þegar stórlið Króata kemur í heimsókn.

Íslenska liðið þarf sigur ætli liðið sér að eiga möguleika á því að vinna riðilinn og komast beint inn á HM í Rússlandi en Króatar stinga af með sigri í Laugardalnum.

Íslenska landsliðið þarf því stórleik frá Gylfa Þór Sigurðssyni í kvöld og erlendir miðlar vita það jafnvel og við.

Who Scored vefsíðan er þannig með samanburð á Gylfa okkar Sigurðssyni og Króatanum Ivan Perisic í tilefni af leiknum í kvöld.

Þar er borin saman tölfræði leikmannanna með sínu félagið liði á síðustu leiktíð en Perisic spilar með Internazionale í Seríu A á Ítalíu en Gylfi með Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Það er óhætt að segja að Gylfi komi vel út í þessum samanburði við Króatann eins og sést hér fyrir neðan.





Gylfi skoraði reyndar aðeins minna en hann er með fleiri stoðsendingar, fleiri skot, fleiri lykilsendingar, fleiri heppnaðar fyrirgjafir og betra sendingahlutfall.

Perisic fær reyndar aðeins hærri einkunn frá Who Scored síðunni og þar vega væntanlega mörkin þungt.

Það er hinsvegar miklu lengri listi yfir styrkleika íslenska miðjumannsins en listinn er fyrir Ivan Perisic.

Styrkleikar Gylfa eru langskotin, fyrirgjafir, lykilsendingar, aukaspyrnur og föst leikatriði. Það er vonandi að Gylfi nái að ógna Króötum á þessum sviðum í kvöld og búa eitthvað til fyrir íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×