„Menn mega eiga von á verulegri hækkun,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgasvæðinu, aðspurður um sektir fyrir notkun á farsímum undir stýri.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vinnur nú að því að endurskoða sektir vegna þessa. Vísir hefur ítrekað beint fyrirspurnum til ráðuneytisins vegna málsins en hvorki hafa fengist svör varðandi það hvað breytingin mun nákvæmlega fela í sér né hvenær hún mun taka gildi.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru 433 teknir fyrir að nota farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar árið 2016. Árið 2015 voru 308 teknir.

Í skýrslu sem gerð var af Samgöngustofu árið 2016 um aksturshegðun almennings má sjá að meirihluti eða 85 prósent telur stórhættulegt, mjög hættulegt eða frekar hættulegt að nota síma undir stýri án handfrjáls búnaðar.
Þá eru 72 prósent sem telja stórhættulegt að senda skilaboð á borð við SMS, Snapchat og Messenger undir stýri og 75 prósent segja það stórhættulegt að hanga á samfélagsmiðlum á meðan verið er að stjórna ökutæki.
Tekin eru dæmi af því að taka myndir undir stýri, stjórna tónlist í símanum, skrifa skilaboð og taka símtöl. Netnotkun og skoðun samfélagsmiðla er einnig tekin sem dæmi.
Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur á öryggis- og fræðslusviði Samgöngustofu, segir erfitt að vita með vissu hvenær umferðarslys verða af völdum farsímanotkunar.

Hann nefnir að umræða hafi verið um hvort að breyta þurfi vinnulagi varðandi rannsókn á umferðarslysum og lögum sem um það gilda, til að auðvelda lögreglu að greina þetta sem mögulegan orsakavald.
Athyglin óskert
Ómar Smári segir að notkun á farsímum sé ekki æskileg meðan verið sé að stjórna ökutæki.
„Þú átt að beina athyglinni að akstrinum, ekki að öðru. Reyndar geta menn notað handfrjálsan búnað en strangt til tekið mega menn ekki vera að gera neitt annað undir stýri en að aka bílnum og horfa í kringum sig. Það er eina örugga leiðin til að komast á milli staða og koma í veg fyrir að slasa sjálfan sig og aðra,“ segir hann í samtali við Vísi.
Ómar segir það mismunandi hvort fólk, sem stoppað sé af lögreglu, viðurkenni hvort það hafi verið að nota símann.
„Sumir gera það, aðrir ekki. Ef að grunur er um að athyglin hafi verið einhvers staðar annars staðar en á veginum þá er fólk yfirleitt spurt að því hvar athyglin hafi verið og hvað það hafi verið að horfa á,“ segir Ómar.