Leiðtogar G20-fundarins í Hamborg hafa náð saman um allt í yfirlýsingu fundarins nema loftlagsmálin þar sem Bandaríkjaforseti þrýstir á ákvæði um notkun jarðefnaeldsneytis. Forsetinn segir öflugan viðskiptasamning við Breta í burðarliðnum og gengið verði frá honum bráðlega.
Mjög róstursamt hefur verið í Hamborg í Þýskalandi vegna leiðtogafundarins. Mótmælendur hafa hindrað umferð um götur eins nálægt fundarstaðnum og þeir geta með því að setjast þvert yfir þær eða með því að kveikja elda. Á annan tug bifreiða voru brenndar í gær og fyrrinótt en fjölmennt lögreglulið hefur meðal annars beitt öflugum vatnsbyssum á mótmælendur. Á annað hundrað manns hafa slasast í átökum mótmælenda og lögreglu og hátt í hundrað manns verið handteknir. Í morgun leitaði lögregla að vopnum á mótmælendum í búðum þeirra í Altona almenningsgarðinum.
Leiðtogarnir hafa notað tækifærið og átt fjölmarga hliðarfundi með öðrum leiðtogum. Angela Merkel kanslari Þýskalands, Vladimir Putin forseti Rússlands og Emmanuel Macron forseti Frakklands funduðu í morgun um ástandið í austurhluta Úkraínu og sammældust um að koma þyrfti á vopnahléi þar á grundvelli Minsk-friðarsamkomulagsins.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Theresa May forsætisráðherra Bretlands áttu tvíhliða viðræður og mættu leiðtogarnir með all stóran hóp með sér eins og viðskiptaráðherra landanna.
Trump sagði viðræður þeirra hafa verið stórkostlegar og engin lönd hefðu í langan tíma staðið nær hvort öðru en Bandaríkin og Bretland. Hann og May væru að vinna að viðskiptasamningi milli ríkjanna, sem yrði mjög, mjög stór og öflugur, frábær fyrir bæði ríkin og hann teldi að samningurinn yrði mjög fljótlega að veruleika.
Bretar geta hins vegar ekki gert fríverslunarsamninga við önnur ríki á meðan þeir eru enn innan Evrópusambandsins þar sem sambandið fer með samningsumboð aðildarríkjanna. En ef Bandaríkin og Bretland ná að gera samning fyrr sem ekki tæki gildi fyrr en að lokinni útgöngu gæti slíkur samningur reynst May tromp í samningum við Evrópusambandið um aðgang að innri markaði þess eftir útgönguna.
