Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, var að vonum svekkt eftir tap liðsins gegn Frakklandi á Evrópumótinu í Hollandi í kvöld.
„Þetta er ótrúlega svekkjandi, en hvað er hægt að gera. Það eru tveir leikir eftir sem við ætlum að klára,“ sagði Sara í viðtali við RÚV strax eftir leikinn í kvöld.
Íslenska liðið átti mjög góðan leik í Tilburg í kvöld og var eina lausn Frakkanna á gríðarlega öflugum varnarleik Íslands mark úr vítaspyrnu.
„Ég er ótrúlega stolt af liðinu. Við spiluðum eins og herforingjar inni á vellinum, vorum þéttar í vörninni eins og við ætluðum okkur og þær fengu engin dauðafæri.“
„Við fengum mörg góð færi sem við hefðum getað nýtt betur, svekkjandi að fá á sig víti undir lokin,“ sagði fyrirliði Íslands.
Sara Björk varð fyrir smá hnjaski undir lok fyrri hálfleiks en hún segist vera í fínu standi og það hafi ekki verið neitt sem muni draga dilka á eftir sér.
Næsti leikur Íslands á mótinu er gegn Sviss á laugardaginn.
Sara Björk: Ótrúlega stolt af liðinu

Tengdar fréttir

Einkunnir íslensku stelpnanna: Sif var drottningin í hjarta íslensku varnarinnar
Íslenska kvennalandsliðið varð að sætta sig við 1-0 tap á móti Frökkum þrátt fyrir flotta frammistöðu í kvöld í fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Frakklandi. Hér má sjá hver stóð sig best í kvöld.

Umfjöllun: Frakkland - Ísland 1-0 | Frábær frammistaða í grátlegu tapi
Stelpurnar okkar mæta ógnarsterku frönsku liði í fyrsta leik sínum á EM.

Guðni Th. og heiðursstúkan tóku vel undir í Víkingaklappinu
Íslensku stuðningsmennirnir hafa verið duglegir að taka Víkingaklappið í fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins á EM í Hollandi.