Erlent

Fyrrverandi njósnari Sovétríkjanna var einnig á fundi Trump yngri

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump yngri.
Donald Trump yngri. Vísir/Getty
Rússneski lögfræðingurinn sem fundaði með þeim Donald Trump yngri, Paul Manafort og Jared Kushner í fyrra var í fylgd með fyrrverandi njósnara Sovétríkjanna. Trump, sem er sonur forseta Bandaríkjanna, var boðaður á fundinn með tölvupóstum þar sem því var haldið fram að lögfræðingurinn ætlaði að færa þeim skaðlegar upplýsingar um Hillary Clinton.

Í tölvupóstunum stóð einnig að upplýsingarnar væru liður í áætlun stjórnvalda Rússlands, að styðja við bakið á Trump eldri í kosningunum. Trump yngri sagðist „elska það“ að fá slíkar upplýsingar.

Bæði Trump og lögfræðingurinn Natalia Veselnitskaya neita því að Hillary Clinton hafi verið rædd á fundinum. Þess í stað hafi þau rætt um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi. Trump yngri hefur sagt að fundurinn hafi verið alger tímasóun, þar sem hann hafi ekki fengið upplýsingar um Clinton.

Í samtali við NBC News staðfestir Veselnitskaya að hún hafi verið í fylgd með manni en vill ekki nafngreina hann. NBC veit hins vegar hver hann er og er hann grunaður um að tengjast enn leyniþjónustum austan hafs. Þá er maðurinn með tvöfalt ríkisfang.

Talið er líklegt að vera mannsins á fundinum muni vekja forvitni þeirra sem rannsaka nú afskipti Rússa af forsetakosningum Bandaríkjanna í fyrra og mögulegt samstarf framboðs Trump með þeim.


Tengdar fréttir

Trump yngri kallaður fyrir þingnefnd

Formaður nefndarinnar, Chuck Grassley, sagði blaðamönnum í dag að Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Trump eldri, yrði einnig kallaður fyrir nefndina.

„Ég elska það“: Trump yngri birtir tölvupóstana

Í póstunum segir berum orðum að fundurinn sé til að koma upplýsingum í þeirra hendur sem gætu skaðað framboð Hillary Clinton og að það sé liður í aðgerðum stjórnvalda Rússlands til að styðja framboð Trump.

Trump: Frábær stemning í Hvíta húsinu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að andrúmsloftið í Hvíta húsinu sé frábært, þrátt fyrir að yfir standi umfangsmikil rannsókn á meintum afskiptum Rússa af kosningabaráttu Trump í fyrra.

Trump segir soninn opinn og saklausan

Bandaríkjaforseti segir son sinn verða fyrir barðinu á nornaveiðum. Trump yngri sagði föður sínum ekki frá fundi sem er sagður hluti af stuðningi Rússlandsstjórnar við framboð föður hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×