Golf

Þrefaldur skolli skemmdi fyrir annars góðum hring

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. visir/getty
Þrefaldur skolli á þrettándu holu setti strik í reikninginn hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur á fyrsta keppnisdegi opna skoska meistaramótsins.

Ólafía Þórunn spilaði á einu höggi yfir pari alls og spilaði heilt yfir mjög vel. Hún fékk fjóra fugla, tvo skolla en það skemmdi fyrir að hún spilaði þrettándu holu vallarins á þremur höggum yfir pari.

Fyrir það hafði hún verið á meðal tíu efstu en var í 37.-56. sæti á einu höggum yfir pari þegar hún lauk keppni. Margir keppendur eiga þó enn eftir að klára sína hringi í dag.

Ólafía lét þó sprengjuna á þrettándu holu ekki á sig fá og svaraði fyrir sig með því að fá fugl á fjórtándu. Hún paraði svo næstu þrjár holur en fékk fugl á átjándu og síðustu holur vallarins.

Ólafía á rástíma klukkan 13.15 á morgun og verður fylst með gangi mála í beinni textalýsingu á Vísi.

Bein útsending hefst frá mótinu á Golfstöðinni klukkan 13.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×