Erlent

Herða þvinganir gegn Rússum þvert á mótmæli Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Þinghús Bandaríkjanna.
Þinghús Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur kosið að herða þvinganir gegn Rússlandi, þrátt fyrir mótmæli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Talið er líklegt að frumvarpið muni gera Trump erfitt að standa við að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands, eins og hann vill gera. Hvíta húsið segir forsetann ekki hafa ákveðið hvort hann muni beita neitunarvaldi gegn frumvarpinu, samkvæmt frétt BBC.



Frumvarpið var samþykkt með 419 atkvæðum gegn þremur, en repúblikanar eru í meirihluta þar. Það þarf þó einnig að fara í gegnum öldungadeildina, þar sem repúblikanar eru einnig í meirihluta, áður en það verður lagt á borð forsetans.

Hinum nýju þvingunum er ætlað að refsa Rússum fyrir afskipti sín af forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra og hernaðaraðgerðir þeirra í Úkraínu og Sýrlandi. Samkvæmt frumvarpinu verða þvinganir einnig hertar gegn Íran og Norður-Kóreu.

Hvíta húsið hefur lýst yfir óánægju með sérstaklega eitt ákvæði frumvarpsins. Það snýr af því að ef Trump ætlaði sér að létta á þvingunum gegn Rússlandi, þyrfti hann að fá leyfi hjá þinginu. Háttsettir embættismenn Hvíta hússins hafa sagt AP fréttaveitunni að með því sé þingið að draga úr völdum forsetans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×