Fótbolti

Dómarinn breytti vítaspyrnudómi eftir ábendingu frá leikmanni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vitulano útskýrir ákvörðun sína.
Vitulano útskýrir ákvörðun sína. Vísir/Getty
Afar óvenjuleg uppákoma var í leik Englands og Spánar á EM kvenna í Hollandi í gær en þá breytti dómari vítaspyrnudómi eftir ábendingu frá leikmanni um hvernig reglurnar væru.

Umræddur dómari er Carina Vitulano, ítalskur dómari sem var einnig við störf á leik Íslands og Frakklands og fékk mikla gagnrýni fyrir, enda vildu Íslendingar fá víti í þeim leik.

Vitulano dæmdi vítaspyrnu í leiknum í gær, þegar staðan var 1-0 fyrir Englandi. Hún dæmdi hendi á enska varnarmanninn Ellen White en dró svo dóminn skyndilega til baka.

Sjá einnig: Freyr hundóánægður: Hvernig réttlætir hún þetta víti miðað við brotið á Fanndísi?

Það gerði hún eftir að Lucy Bronze, varnarmaður Englands, benti henni á að samkvæmt reglunum ætti ekki að dæma víti þegar leikmaður fær boltann óviljandi í höndina.

„UEFA sendir dómara á fundi með leikmönnum fyrir mót og þetta kom fram á þeim fundi,“ sagði Bronze í samtali við fjölmiðla eftir leikinn. Hún hrósaði Vitulano fyrir að hafa hugrekki til að breyta ákvörðuninni.

„Ég sá þetta gerast. Boltinn fór í fótinn hennar og svo upp í höndina. Ég sagði dómaranum þetta og hún sagði að þetta væri rétt, þetta væru hennar mistök.“

„Ég held að fáir dómarar hafi hugrekki til að viðurkenna svona og breyta dómi í svo mikilvægum leik. Spánverjarnir voru svolítið vonsviknar og pirraðar en ef þær horfa aftur á atvikið sjá þær að þetta var algert óviljaverk.“

Leiknum lauk með 2-0 sigri Englands.


Tengdar fréttir

Freyr: Enginn með stjórn á þessum leik

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson var að sjálfsögðu ekki sáttur með tapið fyrir Sviss í Doetinchem í C-riðli Evrópumótsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×