Innlent

Byrjað að rukka fyrir bílastæði við Seljalandsfoss

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ísólfur Gylfi Pálmason er sveitarstjóri Rangárþings eystra.
Ísólfur Gylfi Pálmason er sveitarstjóri Rangárþings eystra. Vísir/Vilhelm
Bílastæðagjald hefur verið tekið upp við Seljalandsfoss og verður fjármagnið nýtt til uppbyggingar innviða við fossinn. Sveitarstjóri Rangárþings eystra segir fulla þörf á úrbótum enda dregur fossinn að sér mikinn fjölda ferðamanna.

Sveitarstjórn Rangárþings eystra og Landeigendafélag Seljalandsfoss standa sameiginlega að gjaldtökunni. Gjald fyrir hvern bíl er 700 krónur og þrjú þúsund krónur fyrir rútur á hvern sólarhring.

Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Seljalandsfoss ár hvert en talið er að þeir hafi verið í kringum fimm hundruð þúsund talsins í fyrra.

Full þörf á úrbótum

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, segir að í ljósi þessa mikla fjölda sé full þörf á úrbótum við fossinn. Sveitarfélagið sjálft hafi verið um þrjátíu milljónum króna í starfsemina en segist ekki geta svarað til um hvað sé gert ráð fyrir að miklir fjármunir komi inn með gjaldtökunni.

„Við ætlum að nýta þá peninga sem koma inn til uppbyggingar við Seljalandsfoss þannig að aðstaða verði þar betri og að sveitarfélagið sé ekki að verja peningum úr sveitarsjóði  til þessarar starfsemi.“

Hann segir að til að mynda að salernisaðstaðan anni ekki öllum þessum fjölda. „Það koma mjög mikið af ferðamönnum og er til þess að gera léleg salernisaðstaða og þess háttar sem við höfum þó verið að bæta núna í ár. En við höfum fyrst og fremst talað um að nýta það fjármagn sem kemur inn til að geta eflt starfsemina á þessu svæði.“

Verður gjaldtakan tímabundin?

„Það hefur í sjálfu sér ekkert verið ákveðið um það en peningarnir sem inn koma verður fyrst og fremst varið til þess að laga aðstöðuna við Seljalandsfoss,“ segir Ísólfur Gylfi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×