Petersen-svítan birti á Facebook-síðu sinni í dag mynd af manni sem tók stærðarinnar pappaspjald af landsliðskonunni Elínu Mettu Jensen ófrjálsri hendi á miðvikudagskvöldið. Pedersen-svítan fjarlægði myndina skömmu síðar.
Petersen svítan biður almenning um aðstoð ! Þessi náungi var að skemmta sér á miðvikudagskvöldið og tók eina af fótboltastelpunum okkar ófrjálsri hendi út úr húsi. Þetta er hún Elín Metta Jensen,“ sagði í tilkynningunni sem Fótbolti.net skrifaði frétt um.
Þar var rifjað upp sambærilegt atvik frá því í fyrra þegar þrjár stúlkur stálu pappaspjaldi með landsliðsmanninum Alfreð Finnbogasyni á. Gerðist það einmitt á meðan EM karla í Frakklandi fór.
„Vinsamlegast sendið á okkur upplýsingar um hver maðurinn er og hvar við finnum hann. Við viljum fá Elínu fyrir morgundaginn svo að allir verði glaðir að taka á móti Sviss. Áfram Ísland,“ sagði í færslu Petersen svítunnar.
Skemmst er frá því að segja að aðilinn hefur beðist afsökunar á framfæri sínu og var um misheppnað grín að ræða samkvæmt heimildum Vísis. Skiltið er komið aftur á Petersen-svítuna svo Elín Metta verður á sínum stað í leiknum gegn Sviss á morgun.
