Frjálsu flæði fólks frá aðildarríkjunum Evrópusambandsins til Bretlands lýkur í mars 2019, á sama tíma og Bretland gengur úr sambandinu.
Frá þessu greindi talsmaður Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í dag. Þá segir talsmaðurinn að breska ríkisstjórnin hafi þegar lagt fram tillögu um hvernig ferðum ríkisborgara ESB-ríkja til Bretlands skuli háttað eftir útgöngu Bretlands úr sambandinu.
Talsmaðurinn segir að frekari upplýsingar um tilhögun innflytjendamála eftir Brexit, verði kynntar síðar. Ekki væri rétt að vera með vangaveltur um slíkt á þessu stigi máls, eða þá að ýja að því að fyrirkomulagið verði með svipuðum hætti og það sé nú.
Meirihluti breskra kjósenda greiddi atkvæði með útgöngu landsins úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 23. júní á síðasta ári.
May sendi framkvæmdastjórn ESB svo bréf þann 29. mars síðastliðinn þar sem hún virkjaði 50. grein Lissabon-sáttmálans fyrir hönd breskra stjórnvalda. Hófst þá tveggja ára samningaferli milli ESB og Bretlands sem lýkur með formlegri úrsögn landsins. Er því búist við að Bretland gangi formlega úr ESB þann 29. mars 2019.

