Erlent

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna gerir lítið úr ógn af Norður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegfarendur í Seúl í Suður-Kóreu ganga fram hjá sjónvarpsskjá sem sýnir Donald Trump hóta nágrönnum þeirra í norðri.
Vegfarendur í Seúl í Suður-Kóreu ganga fram hjá sjónvarpsskjá sem sýnir Donald Trump hóta nágrönnum þeirra í norðri. Vísir/AFP
Bandaríkjamenn eiga að geta sofið rótt án áhyggna af kjarnorkustríði við Norður-Kóreumenn, að sögn Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann segir Donald Trump forseta senda leiðtogum Norður-Kóreu „sterk skilaboð“ með orðfæri sínu.

Aukin spenna hefur færst í samskipti bandarískra og norður-kóreskra stjórnvalda og hafa hótanir gengið á víxl. Trump hótaði Norður-Kóreu þannig með „eldi og heift“ sem heimurinn hefði aldrei áður séð ef stjórnvöld þar létu ekki af hótunum sínum í garð Bandaríkjanna í gær.

Norður-Kóreumenn eru sagðir íhuga af alvöru að skjóta eldflaugum á herstöðvar Bandaríkjanna í Gvam í Kyrrahafi.

Bandaríska leyniþjónustan telur nú að Norður-Kóreumenn hafi getuna til að framleiða kjarnavopn í langdræga eldflaug sem gæti mögulega dregið til Bandaríkjanna.

Tungumál sem Kim skilur

Tillerson segir hins vegar ekkert hafa breytt stöðunni þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli Trump og stjórnvalda í Pjongjang, að því er segir í frétt New York Times.

„Ekkert sem ég hef séð eða veit um bendir til þess að aðstæður hafi breyst verulega síðasta sólahringinn,“ sagði Tillerson í Malasíu þar sem hann er nú staddur í heimsókn.

Kim Jong-un hefur ítrekað átt í hótunum við bandarísk stjórnvöld.Vísir/AFP
Orð Trump hafa sætt gagnrýni en margir hafa skilið þau sem hótun um að beita kjarnavopnum gegn Norður-Kóreu.

„Það sem forsetinn er að gera er að senda sterk skilaboð til Norður-Kóreu á tungumáli sem Kim Jong-un [leiðtogi Norður-Kóreu] getur skilið því hann virðist ekki skilja tungumál milliríkjasamskipta,“ sagði Tillerson.

Forsetinn staðhæfir að hann hafi gert kjarnorkuvopnabúrið öflugra

Trump greip sem fyrr til Twitter í morgun til að tala um kjarnavopn Bandaríkjanna. Í tísti gortaði hann sig af því að kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna væri nú öflugra en nokkru sinni fyrr eftir að hann lét það verða sitt fyrsta verk að fyrirskipa endurnýjun og nútímavæðingu þess.

New York Times bendir á að nútímavæðing kjarnorkuvopna Bandaríkjanna hafi hafist í forsetatíð Baracks Obama. Engar verulegar breytingar hafi orðið á vopnabúrinu frá því að Trump tók við af honum, þrátt fyrir loforð hans um að endurnýja sprengjuflugvélar, kafbáta og eldflaugar.

„Vonandi þurfum við aldrei að nota þetta vald en það mun aldrei koma sá tíma að við séum ekki valdamesta ríki í heimi,“ tísti Trump ennfremur.


Tengdar fréttir

Bandaríkin ekki óvinur Norður-Kóreu

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna reyndi í dag að tala um fyrir stjórnvöldum í Norður-Kóreu. Segir hann Bandaríkin ekki vera óvin eða ógn við stjórn Kim Jong-un.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×