Erlent

New York Times skotspónn bandarískra byssueigenda

Kjartan Kjartansson skrifar
Ræða Loesch í myndbandi NRA er sérstaklega heiftúðug í garð New York Times.
Ræða Loesch í myndbandi NRA er sérstaklega heiftúðug í garð New York Times. NRA
Stærstu samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, NRA, hóta dagblaðinu New York Times í myndbandi sem þau birtu. Kalla þau blaðið „ótrúverðugan og óheiðarlegan snepil“ og segjast „ætla að ná til þess“.

Í myndbandinu notar Dana Loesch, fjölmiðlakona af hægri væng bandarískra stjórnmála, orðalag sem hefur verið Donald Trump forseta tamt og kallar New York Times „gervifréttir“. New York Times hefur birt fjölda uppljóstrana um mál tengd Trump, ekki síst rannsóknina á meintu samráði framboðs hans við Rússa.

„Lítið á þetta sem viðvörunarskot,“ segir Loesch í myndbandinu sem NRA tísti á föstudag.

Þá sakar hún dagblaðið um að vera undir hæl Demókrataflokksins.

„Við erum komin með nóg af stanslausri vörn ykkar fyrir lénsherra ykkar úr Demókrataflokknum,“ segir Loesch.

Grípur hún enn til myndmáls úr heimi skotvopna þegar hún segir að NRA muni beina „leysimiði sínu“ að slagorði blaðsins um að það elti sannleikann heiðarlega.

Segist aðeins vilja aðgerðir á „vígvelli hugmyndanna“

Loesch hafnar því algerlega að myndbandið sé ógn gegn öryggi starfsmanna New York Times. The Guardian hefur eftir henni að hver sá sem skilji myndbandið þannig sé aðeins að „færa ofbeldisfulla hugaróra sína yfir á aðra“.

Þegar hún var spurð hvað hún hefði átt við með að NRA „ætli að ná til“ New York Times sagðist Loesch að hún hafi aðeins verið að hvetja fólk til aðgerða á „vígvelli hugmyndanna“.

Annað myndband NRA með Loesch þar sem hún færði rök fyrir því að fólk ætti að ganga í samtökin til að verja landið fyrir frjálslyndum vakti einnig neikvæða athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×