Marcus Hutchins, ungur breskur tölvuöryggissérfræðingur sem hlaut lof fyrir að hefta útbreiðslu skæðrar tölvuveiru í vor, var handtekinn í Las Vegas í dag.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að Hutchins hafi verið ákærður fyrir að eiga þátt í spilliforritinu Kronos sem hefur verið notað til þess að stela upplýsingum um aðgang að heimabönkum frá netnotendum. Meint brot hans hafi átt sér stað árin 2014 og 2015.
Hutchins komst í heimsfréttirnar þegar hann fann leið til að hefta útbreiðslu WannaCry-veirunnar í maí. Veiran læsti hundruð þúsunda tölva víða um heim. Hún byggði á tóli sem var stolið frá Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA). Upphaflega vildi Hutchins ekki að greint yrði frá nafni hans í tengslum við málið en það var þó síðar gert.
Starfsbræður Hutchins undrast handtöku hans og segja bandarísk yfirvöld gera hrapaleg mistök með henni. Hutchins starfar við að rannsaka spilliforrit.

