Líkurnar virðast sífellt aukast á því að Brasilíumaðurinn Neymar gangi í raðir franska liðsins PSG á næstu dögum eða vikum.
Sky Sports greinir frá því að Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG, telur að samningaviðræður við Barcelona, félag Neymar, gangi vel og að líklegt sé að aðilar muni komast að samkomulagi.
Riftunarverðið á samningi Neymar við Barcelona er 222 milljónir evra. Ef að PSG borgar uppsett verð fyrir hann yrði hann um leið langdýrasti leikmaður sögunnar.
Heimildamaður Sky Sports segir 90 prósenta líkur á því að Neymar verði orðinn leikmaður PSG innan skamms en hann sneri aftur til Spánar í gær eftir að hafa verið í Kína við kynningarstörf. Áætlað er að hann mæti á æfingu með liðsfélögum sínum í Barcelona í dag.
Barcelona er nýkomið aftur til Spánar eftir æfingaferð í Bandaríkjunum þar sem liðið vann sigra á Juventus, Manchester United og Real Madrid.
