Tíu manns, þar af einn starfsmaður, á Úlfljótsvatni eru nú veikir af nóróveirusýkingu. Þeir níu skátar sem veikir eru dvöldu allir í fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði um síðustu helgi.
„Það kemur í ljós í raun og veru í gær að það hafa fimm veikst yfir daginn. Innan hóps sem var í fjöldahjálparstöðinni um helgina. Hópurinn var í ferð yfir daginn og þegar hann kemur aftur inn á svæðið þá fara þau bara beint í sérstaka byggingu þar sem við höfum einangrað þau,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.
„Svo vill svo til að það er hjúkrunarfræðingur í starfsliðinu sem hefur fylgst með líðan þeirra. Svo þegar líður á nóttina þá bætast fjórir við úr þessum hópi og einn starfsmaður.“
Öðrum hópum boðið að fara frá Úlfljótsvatni
Í morgun, þegar lá fyrir að veiran væri að dreifast innan þessa tiltekna hóps en ekki á milli hópa á staðnum var öðrum hópum boðið að fara af svæðinu og finna sér annan náttstað.
„Þessi hópur sem er sýktur núna, við fylgjumst grannt með þeim í dag og því hvort það komi upp ný tilfelli. Ef það gerist ekki þá skilst mér að ekkert sé því til fyrirstöðu að þau fljúgi heim á morgun,“ segir Elín Esther en veikindin standa yfirleitt yfir í 1-2 daga.
„Við höfum verið í sambandi við sóttvarnarlækni og leitað til hans þegar eitthvað breytist. Hann ráðleggur okkur með að leggja aukna áherslu á hreinlæti og halda hópnum aðskildum og svo framvegis.“
Vilja lágmarka skaðann
Á níunda tug hafa nú sýkst af nóróveirusýkingu á Úlfljótsvatni á fimm dögum.
181 erlendur skáti og foringjar voru færðir í einangrun í grunnskólann í Hveragerði aðfaranótt föstudags eftir að á sjötta tug þeirra greindust með fyrrnefnd einkenni nóróveiru. Bati flestra var þó fljótur og allir höfðu verið útskrifaðir á sunnudag.
„Svo þegar hópurinn fer að smitast þá viljum við finna leiðir til að lágmarka skaðann. Við erum enn í þeim fasa að bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökum heilbrigðiseftirlitsins en eftir því sem við vitum þá er ekkert sem bendi til þess að þetta eigi upptök sín á staðnum heldur að þetta komi á staðinn og dreifist hér. Þá vonum við með því að senda hópa í burtu, að það sé tækifæri til að binda almennilegan endahnút á þetta.“
Sjáið þið fyrir endann á þessu núna?
„Við vonum það.“