Forsetinn ræddi við blaðamenn í golfklúbbi sínum í New Jersey og sagði hann Norður-Kóreumenn hafa komist upp með „harmleik“ og ekki væri hægt að leyfa slíkt lengur. Hann neitaði þó að tjá sig um það hvort að stjórnvöld hans væru að íhuga fyrirbyggjandi hernaðaraðgerðir gegn Norður-Kóreu.
Mikil spenna hefur myndast á milli ríkjanna að undanförnu vegna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlana ríkisstjórnar Norður-Kóreu. Viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna gagnvart Norður-Kóreu hafa verið hertar á undanförnum mánuðum.
Nú í vikunni bárust fregnir af því að leyniþjónustur Bandaríkjanna telja Norður-Kóreumenn hafa náð meiri árangri en áður hafi verið talið. Norður-Kórea hefur þar að auki hótað því að gera árásir á eyjuna Gvam.
„Norður-Kórea þarf að taka sig saman í andlitinu því annars verða þeir í vandræðum sem fáar aðrar þjóðir hafa verið í,“ sagði Trump. Hann sagði viðræður „auðvitað“ koma til greina, en búið væri að reyna þær í 25 ár.