Lögreglan í Houston hefur bjargað um 3500 úr hamfaraflóðum síðan hitabeltisstormurinn skall á. Auk þess sagði Samuel Peña, slökkviliðsstjórinn í Houston að slökkviliðsmönnum hefði tekist að bjarga um fjögur hundruð manns.
Úrkomumet slegið
Veðurstofa Bandaríkjanna greindi frá því í dag að úrkomumet vegna eins og sama fellibylsins hefði verið slegið á meginlandi Bandaríkjanna. Tvær veðurstofur hafa mælt yfir tólf hundruð millimetra úrkomu.

Lögreglumaðurinn Steve Perez drukknaði í Houston á sunnudag þegar hann reyndi að komast til vinnu í miðju flóði. Leit hefur staðið yfir að manninum en í dag var það staðfest að hann drukknaði í bílnum sínum inni í undirgöngum. Þetta kemur fram á vef CNN. Eiginkona Perez á að hafa grátbeðið hann um að halda kyrru fyrir en að hann hafi ekki látið segjast. „Ég á mikið verk fyrir höndum,“ á lögreglumaðurinn að hafa sagt áður en hann fór.
Sex manna fjölskylda talin af
Vísir greindi frá því í gær að lögreglustjórinn í Texas óttaðist að sex manna fjölskylda hefði látist í hamfaraflóðunum. Ættingjar segja fjögur börn, auk afa þeirra og ömmu, vera talin af, eftir að sendibíllinn sem þau reyndu að flýja flóðið í, sogaðist út í á og sökk. Frændi barnanna, sem ók bílnum, slapp með naumindum út um glugga bílsins. Börnin voru á aldrinum sex, átta, fjórtán og sextán.