Erlent

Vefsíða Bannon gagnrýnir kúvendingu Trump í Afganistan

Kjartan Kjartansson skrifar
Stephen Bannon (t.h.) hefur heitið því að verja Trump og herja á þá sem hann telur andstæðinga popúlískrar þjóðernisstefnu hans.
Stephen Bannon (t.h.) hefur heitið því að verja Trump og herja á þá sem hann telur andstæðinga popúlískrar þjóðernisstefnu hans. Vísir/AFP
Hægrivefsíðan Breitbart gagnrýnir Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega fyrir stefnubreytingu sína í Afganistan. Stephen Bannon tók aftur við stjórn miðilsins eftir að hann var rekinn sem aðalráðgjafi Trump á föstudag.

Trump tilkynnti í gær að þúsundir bandarískra hermanna yrðu áfram í Afganistan þrátt fyrir að hann hefði lengi gagnrýnt stríðsreksturinn þar. Hefur hann kallað afskipti Bandaríkjamanna í Afganistan tímasóun.

Bannon hét því að heyja stríð gegn öflum innan Hvíta hússins eftir að hann var látinn fara þaðan fyrir helgi. Hann tók strax við fyrra starfi sínu sem stjórnarformaður Breitbart. Þess mátti strax sjá merki á síðunni eftir ræðu Trump í gær.

Líktu Trump við Obama

Þannig kallaði Breitbart ákvörðun Trump „heljarstökk aftur á bak“ sem væri kúvending á stefnu Bandaríkjanna. Líkti vefritið Trump við Barack Obama, forvera hans í embætti forseta. Dagblaðið Politico segir það sérstaklega viðkvæma gagnrýni fyrir Trump.

Beindi Breitbart jafnframt spjótum sínum að H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafa Trump, sem Bannon leit á sem svarinn andstæðing sinn í Hvíta húsinu.

Trump rökstuddi ákvörðun sína um að draga bandarískt herlið ekki frá Afganistan með þeim orðum að brotthvarfið myndi skapa tómarúm í landinu sem hryðjuverkamenn gæti stigið inn í.


Tengdar fréttir

Aðalráðgjafi Trumps rekinn

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt sínum nánasta hring að hann hafi í hyggju að reka aðalráðgjafa sinn, Steve Bannon.

Ætla að berjast til sigurs í Afganistan

Donald Trump ávarpaði samkomu í Fort Meyer-herstöðinni í Texas í gær og ræddi þar hernaðarstefnu ríkisstjórnarinnar í Afganistan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×