Erlent

Munu ekki fyrirgefa andóf

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
David Davis, Brexitmálaráðherra.
David Davis, Brexitmálaráðherra. vísir/EPA
David Davis, Brexitmálaráðherra Bretlands, sagði á þingfundi í gær að Bretar myndu ekki fyrirgefa Verkamannaflokknum ef stjórnarandstæðingar reyndu að tefja eða skemma fyrir afgreiðslu frumvarps sem á að nema lög Evrópusambandsins úr gildi og innleiða þau í bresk lög í staðinn.

Frumvarpið er hryggjarstykki í útgönguáætlun ríkisstjórnar Íhaldsflokksins undir forsæti Theresu May en Verkamannaflokkurinn hefur sagst ætla að kjósa á móti frumvarpinu í núverandi mynd.

Í umræðum um frumvarpið í gær sagði Keith Starmer, skuggaráðherra stjórnarandstöðunnar í Brexitmálum, að með frumvarpinu væru ráðherrar að taka sér of mikil völd. Jafnframt breytti frumvarpið þingmönnum í áhorfendur.

Davis sagði hins vegar að frumvarpið væri í raun tæknilegs eðlis og sett fram til þess að borgarar og fyrirtæki vissu í hvorn fótinn þau ættu að stíga eftir útgöngu. Hann væri jafnframt tilbúinn til þess að hlusta á allar tillögur um hvernig væri hægt að bæta frumvarpið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×