„Það var gríðarlega gaman að taka þátt í þessu og maður gengur stoltur frá borði. Mér fannst liðheildin skapa þennan sigur í dag. Við sýndum karakter með því að koma til baka eftir vonbrigðin í Finnlandi,“ segir Sverrir Ingi.
„Við vissum að leikurinn myndi spilast svona enda mikið undir hjá báðum liðum. Við vissum að við yrðum að vera þolinmóðir. Við ætluðum aldrei að opna okkur og bjóða hættunni heim. Það breytti miklu að fá mark snemma í síðari hálfleik og við hefðum getað skorað fleiri mörk.“
Sverrir og félagar í vörninni stigu vart feilspor og Úkraínumenn fengu úr afar litlu að moða.
„Kári og Raggi hafa verið frábærir síðustu ár. Ég var staðráðinn í að koma sterkur inn og spila einfalt. Ég hef beðið þolinmóður og mjög gaman að fá tækifæri í sigurleik. Það var smá fiðringur að spila sinn fyrsta mótsleik og þetta er ekki eins og að spila með félagsliði. Það er mikið stolt að spila fyrir Ísland og stórt skarð sem ég þurfti að fylla. Mér fannst ég komast vel frá þessu í dag.“