Fótbolti

Danir sýndu allar sínar bestu hliðar í Armeníu | Öll úrslit kvöldsins í undankeppni HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Delaney skoraði þrennu fyrir Danmörku gegn Armeníu.
Thomas Delaney skoraði þrennu fyrir Danmörku gegn Armeníu. Vísir/Getty
Níu leikir fóru fram í undankeppni HM 2018 í dag.

Heimsmeistarar Þjóðverja rúlluðu yfir Norðmenn, 6-0, í Stuttgart. Þýskaland er með 24 stig á toppi C-riðils, fimm stigum á undan N-Írum sem unnu 2-0 sigur á Tékklandi í kvöld.

West Brom-mennirnir Jonny Evans og Chris Brunt skoruðu mörk N-Írlands sem er öruggt með 2. sætið í riðlinum og þar með sæti í umspili um sæti á HM.

Þá vann Aserbaísjan 5-1 sigur á San Marinó. Aserar eru í 3. sæti riðilsins, fyrir ofan bæði Tékka og Norðmenn.

Thomas Delaney skoraði þrennu þegar Danmörk vann 1-4 útisigur á Armeníu í E-riðli. Christian Eriksen var einnig á skotskónum en hann skoraði með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu.

Í sama riðli vann Pólland 3-0 sigur á Kasakstan og Svartfjallaland bar sigurorð af Rúmeníu, 1-0.

Pólverjar eru með 19 stig á toppi E-riðils. Danir eru með 16 stig í 2. sætinu, jafn mörg og Svartfellingar sem eru í sætinu fyrir neðan. Danmörk og Svartfjallaland mætast í næstu umferð undankeppninnar.

Marcus Rashford tryggði Englandi 2-1 sigur á Slóvakíu í F-riðli. Englendingar eru með 20 stig á toppi riðilsins en spennan um 2. sætið er mikil.

Slóvenía vann 4-0 sigur á Litháen í kvöld og Skotland lagði Möltu að velli, 2-0. Bæði Slóvenar og Skotar eru með 14 stig í 3.-4. sæti riðilsins, einu stigi á eftir Slóvökum sem eru með 15 stig í 2. sætinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×