Jón Halldór Eðvaldsson, einn sérfræðinga Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport, vill sjá meiri útgeislun hjá leikmönnum íslenska liðsins.
„Manni finnst vanta alla stemmningu. Mér finnst þeir gefa svo lítið frá sér. Ég átti ekki von á því að þeir myndu vinna leik en það vantar allan neista. Það eru 1500 Íslendingar á hverjum leik þarna að hvetja þá áfram. Þetta er svo dauft,“ sagði Jón í samtali við Vísi í dag.
„Þeir eru ekkert að spila undir getu en það vantar allan kraft og að fólkið fái eitthvað til baka. Ísland tapaði öllum leikjunum á síðasta móti en strákarnir gáfu svo mikið af sér. Þetta er eins og blaðra sem ekkert loft er í. Þeir eru að leggja sig fram en eru ekki að selja fólkinu það.“

„Menn mættu ekki til leiks í gær. Okkar lykilmenn gátu ekki rassgat,“ sagði Jón Halldór.
Ísland spilaði vel í fyrri hálfleik í dag en í þeim seinni steig Frakkland á bensíngjöfina og seig fram úr.
„Þegar þeir þurfa að gefa í gera þeir það. Þótt við værum bara sjö stigum undir í hálfleik voru Frakkar alltaf með tökin á leiknum. Þeir voru bara rólegir framan af,“ sagði Jón Halldór.

Hlynur Bæringsson átti slakan leik í dag og endaði aðeins með tvö stig og eitt frákast sem telst til tíðinda á þeim bænum.
„Hvað er að frétta? Í alvöru talað. Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum var hann ekki kominn með stig eða frákast. Þetta er óeðlilegt,“ sagði Jón Halldór að lokum.