Fótbolti

Samherji Alberts tryggði Mexíkó farseðilinn til Rússlands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hirving Lozano skoraði eina mark leiksins gegn Panama.
Hirving Lozano skoraði eina mark leiksins gegn Panama. vísir/getty
Mexíkó varð í nótt fimmta liðið til að tryggja sér sæti á HM í Rússlandi á næsta ári.

Mexíkóar unnu þá 1-0 sigur á Panama á heimavelli. Hirving Lozano, samherji Alberts Guðmundssonar hjá PSV Eindhoven, skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu.

Mexíkó er með 17 stig á toppi úrslitariðilsins í Norður- og Mið-Ameríkuhluta undankeppni HM.

Kosta Ríka, sem vann 0-2 sigur á Bandaríkjunum í gær, er í 2. sæti riðilsins með 14 stig. Þetta var fyrsti sigur Kosta Ríka í Bandaríkjunum í 32 ár.

Bandaríkin eru í 3. sæti riðilsins með átta stig, jafn mörg og Hondúras sem bar sigurorð af Trínidad og Tóbagó í gær, 1-2.

Þrjú efstu lið riðilsins komast beint inn á HM. Liðið í 4. sæti mætir liði frá Asíu í tveimur umspilsleikjum um sæti á HM.

Eins og áður sagði eru fimm lið búin að tryggja sér sæti á HM. Þetta eru Mexíkó, Brasilía, Íran, Japan og að sjálfsögðu heimalið Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×