Jöklar í fjallgörðum Asíu eru stærsti forði ferskvatns á jörðinni fyrir utan heimsskautin tvö. Þeir sjá nokkrum stærstu fljótum jarðar fyrir vatni, þar á meðal Ganges, Indus og Brahmaputra sem hundruð milljóna manna reiða sig á.
Í nýrri rannsókn sem birtist í vísindaritinu Nature í síðustu viku kemur fram að jafnvel þó að miðað sé við að jarðarbúum takist á einhvern hátt að halda hlýnun innan við 1,5°C muni asísku jöklarnir missa um 36% massa síns fyrir 2100.
Massatapið enn meira með meiri hlýnun
Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hlýnun innan við 2°C miðað við fyrir iðnbyltinguna og innan við 1,5°C ef mögulegt er. Miðað við núverandi losun manna á gróðurhúsalofttegundum stefnir þó í að hlýnunin verði mun meiri.

„Jafnvel þó að hitastigið jafnist út við núverandi gildi mun massatapið halda áfram um ókomna áratugi,“ segja vísindamennirnir sem standa að rannsókninni, að því er kemur fram í umfjöllun The Guardian.
Vatnsskortur er ekki eina hættan sem bráðnun jöklanna hefur í för með sér fyrir íbúa í skugga fjallanna. Hættan á kröftugum hlaupum í jökulánum eykst þegar þeir bráðna hraðar. Sú flóðahætta bætist ofan á þá sem skapast af meiri úrkomu úr öflugari stormum í hlýnandi heimi.
Varað var við djúpstæðum áhrifum bráðnunar jökla á jörðinni í annarri rannsókn sem birtist fyrr í þessum mánuði og tveir íslenskir fræðimenn áttu þátt í.