Vísir greindi frá því um helgina að Sveinn hafi skrifað undir bréf fyrir Hjalta. Það hafi þó verið á þeim forsendum að Hjalti ætlaði að sækja um vinnu við akstur hjá olíudreifingarfyrirtæki. Hann neitar því að hafa skrifað undir meðmælabréf fyrir Hjalta vegna umsóknar hans um uppreist æru.
Í framhaldinu steig Haraldur, yfirmaður hjá Teiti Jónassyni, fram og sagðist sömuleiðis hafa skrifað meðmæli fyrir Hjalta til að sækja um vinnu. Ekki uppreist æru.

„Hann vissi það alveg,“ segir Hjalti. Það sama hefur hann að segja um undirskrift Sveins Eyjólfs. Hjalti, sem viðurkennt hefur að hafa skrifað tvö af þeim þremur bréfum sem fylgdu umsókn hans um uppreist æru, segir að hann hafi mætt með bréf sem Sveinn átti að skrifa undir. Aðspurður hvort að Sveinn hafi vitað um tilgang bréfsins segir Hjalti að svo hafi verið.
„Nákvæmlega, því að ég var búinn að undirstrika það við hann,“ segir Hjalti. Sveinn starfaði sem yfirmaður hjá Kynnisferðum, nú Reykjavík Excursions, í þrettán ár. Var hann næsti yfirmaður Hjalta þegar hann starfaði hjá Kynnisferðum.
Sveinn segist hafa skrifað undir meðmælin undir þrýstingi frá yfirmönnum hjá Kynnisferðum. Benedikt Sveinsson, þriðji umsagnaraðili Hjalta, er einn eigenda Kynnisferða.

„Enda fór ég með uppreista æruna um leið og ég fékk hana til þess að sýna honum hana. Í raun og veru vorum við báðir ánægðir með þetta,“ segir Hjalti.
„Þetta var áfangi sem við héldum að væri í lagi. Hann vildi fá mig strax í vinnu.“
Hjalti fékk árið 2004 fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega á stjúpdóttur sinni frá því hún var fimm ára og til sautján ára aldurs.
Aðspurður að því af hverju hann telji að Sveinn Eyjólfur og Haraldur Þór hafi gefið út yfirlýsingar þar sem þeir segjast hafa verið blekktir af Hjalta að hann telji að þeir séu að verja sig.

„Þeir skrifa um þetta í þeirra trú að þetta séu trúnaðarskjöl sem aldrei nokkur maður eigi eftir að lesa nema ráðuneytið og ríkisstjórn,“ segir Hjalti.
Hjalti skilaði einnig inn meðmælabréfi frá Benedikti Sveinssyni, föður Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra. Hafði Hjalti útbúið það bréf til undirskriftar.
Lektor í refsirétti segir að tilefni gæti verið til endurupptöku á ákvörðunum um uppreista æru ef formgallar hafa verið á umsóknum, líkt og Haraldur Þór og Sveinn halda fram. Breytingar á meðmælabréfum gætu talist refsiverðar.

Haraldur Þór Teitsson segist í Fréttablaðinu í dag íhuga að leita réttar síns. Hann hefur falið lögmanni sínum að óska eftir gögnum frá dómsmálaráðuneytinu varðandi umsókn Hjalta Sigurjóns Haukssonar um uppreist æru.
„Síðan skoðum við framhaldið þegar ég kem heim,“ segir Haraldur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort hann hyggist kæra það til lögreglu að meðmælabréf í hans nafni hafi verið notað af Hjalta til að sækja um uppreist æru.