Í færslu á Facebook-síðu sinni skrifar Jón að Sigríður hafi haft beiðnina um uppreist æru fyrir dæmdan sakamann á borði sínu frá því í vor.
„Hún kynnti sér þá strax þær reglur sem um þetta gilda og í framhaldi neitaði að skrifa undir. Þá setti hún vinnu af stað til að undirbúa breytingu á þessum reglum. Þetta er nokkrum vikum áður en þessi mál koma í almenna umræðu,“ skrifar Jón um samflokkskonu sína.
Þannig segir hann Sigríði fyrsta ráðherrann til að spyrna við fótum og hefja vinnu við breytingar á regluverkinu um uppreist æru. Það telur hann staðfesta ábyrgðarleysi alþingismanna sem ákveði að slíta ríkisstjórnarsamstarfi vegna þessara mála.
Sigríður hefur legið undir harðri gagnrýni fyrir að hafa upplýst Bjarna Benediktsson, forsætisráðherra, um að faðir hans hafi skrifað undir meðmæli um uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing á sama tíma og ráðuneyti hennar neitaði að birta upplýsingar um sambærilegt mál sem fjölmiðlar og fórnarlömb höfðu óskað eftir.
Athygli vekur að vefsíðan Andríki-Vefþjóðviljinn birti einnig grein í dag um að Sigríður hafi neitað að skrifa undir beiðni um uppreist æru dæmds kynferðisbrotamanns.
Titill greinarinnar er „Ráðherrann sem stöðvaði uppreist æru“. Þar kemur fram að engum hafi verið veitt uppreist æru í ráðherratíð Sigríðar og að hún sé fyrsti ráðherrann til að neita að skrifa undir beiðni af þessu tagi.
Glúmur Björnsson, eiginmaður Sigríðar, er einn þriggja manna sem sagðir eru fara með ritstjórn Andríkis. Sigríður sat sjálf í stjórn útgáfufélags Andríkis frá 1995 til 2006 og í ritstjórn Vefþjóðviljans sömu ár samkvæmt æviágripi hennar á vef Alþingis.